Það er alger óþarfi að leita langt yfir skammt að samanburðinum, líklega væri maður ekki nema um klukkutíma eða kannski tæplega það að skjótast með Fokker-vél frá Egilsstöðum til Voga í Færeyjum.

„Okkur Íslendingum hefur aldrei þótt löng leið til Færeyja. Teljum við Færeyjar með útlöndum? Mér er það til efs, hygg þær séu í vitund Íslendinga sambland af útlöndum og heimalandinu,“ skrifar skáldið Hannes Pétursson í ferðadagbókinni, Eyjunum átján.

Það má vissulega vera að Hannes hafi rétt fyrir sér en í efnhagslegu tilliti eru Færeyjar aftur á móti útlönd; þar er verðbólgan hvergi nærri 12%, líkt og hér á Íslandi, né stýrivextirnir  15,5% og áhrif kreppunnar á fjármálamörkuðum hverfandi miðað við það sem menn hafa upplifað á Íslandi.

Og líkast til hafa  fæstir Færeyingar hugmynd um hvað skuldatryggingaálag er þótt það hugtak sé nú nánast orðið að almannaeign á Íslandi.

Tjóðruð við evruna

Færeyska krónan er sem jarðfastur steinn í samanburði við það laufblað sem íslenska krónan hefur reynst vera í sviptivindum á fjármálamörkuðum þar sem fullyrt er að gírugir spákaupmenn, reyndar af mörgu þjóðerni, sveimi yfir sem gammar í leit að hræi. Þó er ekki víst að íslenskur ferðalangur, sem fær sér kannski eitthvað í gogginn  þegar hann er kominn frá Vogum til Þórshafnar á Straumey og greiðir fyrir matinn með færeyskum krónum, geri sér grein fyrir því að í reynd er hann kominn inn á evrusvæðið. Það er þó staðreynd þótt Færeyingar hafi sína eigin mynt og séu raunar ekki heldur í Evrópusambandinu.

Skýringin er afar einföld: ein færeysk króna er jafngildi einnar danskrar krónu og danska krónan er tjóðruð kyrfilega við evruna og með nánast engum slaka í seinni tíð.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .