Eik Banka P/F, sem áður hét Føroyja Sparikassi P/F, stefnir nú á skráningu í Kauphöll Íslands og Kauphöll Kaupmannahafnar. Föroya Banki er nú í skráningarferli. Megintilgangur útboðsins er að afla fjármuna sem notaðir verða til að kaupa danska hlut SkandiaBanken AB, að sögn greiningardeildar Kaupþings.

"Boðnir verða á milli 782.609 til 1.016.160 nýir hlutir í Eik Banka á genginu 575 danskar krónur á hlut en lokagengi Eik Banka í gær var 697 danskar krónur á hlut," segir greiningardeild.

"Núverandi hluthafar Eik Banka hafa forgangskauprétt að hinum útboðnu hlutum en verði eftirspurn þeirra minni en útboðnir hlutir geta aðrir fjárfestar frá Íslandi, Færeyjum eða Danmörku skilað inn bindandi skráningu í eftirstandi útboðna hluti. Verði umframeftirspurn eftir þeim hlutum munu úthlutaðir hlutir til hvers nýs hluthafa skerðast í samræmi við það."

Eik Banki hefur frá 1994 þróast yfir í banka með þjónustu á öllum sviðum fjármálaþjónustu en hann rekur 17 útibú í Færeyjum en um 250 manns starfa hjá bankanum sem var breytt í hlutafélag árið 2002, að sögn greiningardeildarinnar.

"Bankinn hefur frá því, líkt og íslensku bankarnir, sótt á alþjóðlega markaði og var svo komið að um helmingur hagnaðar ársins 2006 var upprunninn utan Færeyja," segir greiningardeildin.

Hagnaður bankans árið 2006 nam ríflega 250 milljónum danskra króna, eða 2,8 milljörðum króna og nær tvöfaldaðist frá árinu 2005. "Gríðarlegur gangur hefur verið á hlutabréfum bankans en gengi bréfa bankans fjórfaldaðist frá árslokum 2004 til ársloka 2006 en lokagengi síðasta árs var 483 danskar krónur á hlut. Lokagengi dagsins í gær var sem fyrr segir 697 danskar krónur á hlut og hefur því hækkað um 44% frá áramótum," segir greiningardeildin.