„Þetta var góður dagur og það er mikill áhugi á þessum kynningum og færeyskum fyrirtækjum,“ segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar í samtali við Viðskiptablaðið en í gær hélt Virðisbrævamarknaður Føroyja (VMF) fjárfestaþing í Reykjavík í samstarfi við Kauphöllina á Íslandi.

Þórður segir að fjárfestar hafa áhuga á því að kanna hvort frekari samstarf fyrirtækja ríkjanna tveggja gerið verið hagkvæmt en nú þegar séu mikil tengsl á báða bóga. Þannig nefnir hann sem dæmi að bæði færeysk fjármálafyrirtæki og tryggingafyrirtæki hafi sýnt áhuga á starfssemi hér á landi.

Nú þegar eru fjögur færeysk fyrirtæki skráð í Kauphöllina, Atlantic Airways, Atlantic Petroleum, Eik Bank og Føroyja Banki en Atlantic Petroleum var fyrsta færeyska félagið í Kauphöllinni, skráð um mitt ár 2005.

Ruðningsáhrif af íslensku fjármálafyrirtækjunum

Aðspurður hvort þessi félög hafi hingað til fallið í skuggann af íslensku félögunum segir Þórður að hafa verði í huga að um 90% hlutabréfa í Kauphöllinni hafi verið fjármálafyrirtæki á síðustu árum.

„Það voru óneitanlega ruðningsáhrif af þeim,“ segir Þórður og nefnir sem dæmi að smátt og smátt hafi  sjávarútvegsfyrirtækin farið úr Kauphöllinni með frekari umsvifum fjármálafyrirtækja.

„Færeysku félögin hafa vafalítið liðið fyrir það líka og fallið í skuggann af stóru íslensku félögunum, það vildu einfaldlega allir tengjast bönkunum. Nú eru hins vegar aðeins tvö fjármálafyrirtæki skráð í Kauphöllina og þau eru bæði frá Færeyjum.“

Fimm mögulegir geirar til að fjárfesta í

Þórður segir, aðspurður um framhaldið, að hann eigi von á nokkuð af nýskráningum í Kauphöllina á næsta ári. Hann segist vona til þess að eitthvað af þeim félögum verði frá Færeyjum. Hann segir Færeyinga hafa margt upp á að bjóða og nefnir sem dæmi fjármálafyrirtæki, tryggingafélög, fjarskiptafélög og að hugsanlega séu mikil tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum.

Þá nefnir Þórður fimmta geirann, olíuvinnsluna en tekur fram að líklega séu nokkur ár í að hún fari að samtvinnast íslensku efnahagslífi.

Þórður segir margt líkt með þjóðunum, svo sem uppruni, menning og fleira. Hann segir að Færeyingar hafi þó farið sér hægar en Íslendingar síðustu ár og stigið varlega til jarðar. Líklega hafi kreppan sem skall yfir Færeyjar í byrjun 10. áratugarins gert það að verkum að menn gangi í dag hægt um gleðinnar dyr.