Greint var frá því í síðustu viku að Viktoría Jensdóttir hefði verið ráðin til Skipta, sem er að sameinast Símanum, og muni þar leiða nýja deild, sem nefnist virðisþróun. Þar verður unnið við að skoða, greina virðisstrauminn og einfalda ferla að hætti Lean-hugmyndafræðinnar. „Þetta leggst mjög vel í mig. Ég er búin að flakka um fyrirtækið og hér eru allir áhugasamir og jákvæðir. Ég hlakka til að byrja ballið af alvöru,“ segir hún.

Það var hjá Alcoa Fjarðaáli árið 2006 sem hún kynntist hugmyndafræðinni en þar kláraði hún M.Sc í iðnaðarverkfræði í Háskóla Íslands meðfram vinnu hjá Alcoa. Þar starfaði hún sem ferilseigandi steypuskála í fjögur ár en fór síðan yfir til stoðtækjafyrirtækisins Össurar þar sem hún var deildarstjóri umbóta og öryggis. Þar vann hún sömuleiðis eftir hugmyndafræðinni. Innmúraðir í Lean-fræðunum þekkja þau inn og út.

Öðru máli gegnir um leikmenn sem ráku upp stór augu þegar þeir sáu að hún er með silfur í Lean Black Belt Six Sigma frá Pyzdek Institute og ætli að innleiða sjónræna stjórnun hjá Skiptum. Viktoría segir ekki hægt að taka mynd af beltinu. Þetta sé skjalfest gráða sem svipi til Lean og eigi lítið skylt við karate og júdó. „En það er hægt að vera með ýmiss konar belti, m.a. gult og grænt, en það tekur allt mið af því hversu mikill sérfræðingur þú ert og hvernig verkefni þú leiðir,“ segir Viktoría sem hefur bæði sótt sér þekkingu í straumlínustjórnum á námskeiðum víða og veitt af viskubrunni sínum bæði með kennslu við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og úti.

Viktoría er gift Stuart Maxwell, verkfræðingi hjá Mannviti, og eiga þau tvo syni. Spurð hvernig hún verji frítíma sínum segir hún lítið um slíkt. „Frí er ekki til í minni orðabók. Það eina sem skiptir máli er að halda áfram,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .