Nýtt fríblað fjölmiðlarisans Rupert Murdoch, Thelondonpaper, var fyrst dreift á mánudag og fékk það nokkuð misjafnar viðtökur lesenda, segir í frétt Financial Times. Útgáfufyrirtæki Murdoch í Bretlandi, News International, gefur út blaðið en því er ætlað að höfða til yngri lesenda með léttum og hressilegum stíl.

Mikil samkeppni ríkir nú á dagblaðamarkaði í London, en Associated Newspapers, sem gefur út Evening Standard, hóf útgáfu á fríblaði sínu, London Lite, í síðustu viku. Útgáfufyrirtækin stefna á að dreifa 400 þúsund eintökum í miðborg London, en News International stefnir einnig á útgáfu í fleiri borgum Bretlands. Viðmælendur Financial Times tóku misvel í Thelondonpaper, en flestum þótti það líkjast Evening Standard ískyggilega.

Fríblaðaútgáfunni hefur verið tekið vel af auglýsendum í London. Auglýsendum þykja neytendur á aldrinum 16 til 35 ára hvað eftirsóknarverðastir, en æ erfiðara hefur verið að ná til þeirra, þar sem þeir hafa verið að færa sig frá sjónvarpi og dagblöðum yfir í sérhæfðari miðla.

Fríblaðið Metro, sem dreift er á lestarstöðvum London, þykir hafa tekist vel til að fá unga neytendur til að líta upp frá Internetinu og lesa dagblöð öðru hvoru. Þó að útgefendur beri vonir um að muni ungir neytendur færi sig yfir í dagblöð sem greiða þarf fyrir, búa sig flestir undir breytta tíma og má vænta gagnsóknar frá þeim, segir í fréttinni.