Sérfræðingar bankanna telja á mörkunum að Dagsbrún hefði haft bolmagn til að hrinda Nyhedsavisen af stað upp á eigin spýtur. Félagið sé ansi skuldsett og því skynsamlegt að stofna sjóð um verkefnið með öðrum fjárfestum. Dagsbrún ætlar þar aðeins að leggja til um 15%, sem kom flestum í opna skjöldu enda ekki beinlínis í takt við það sem fyrri yfirlýsingar höfðu gefið til kynna.

Svenn Dam, forstjóri 365 Media Scandinavia, segir að allt gangi samkvæmt áætlun -- nema lætin sem urðu í síðustu viku þegar Dagsbrún kynnti árshlutauppgjör sitt.

Frands Mortensen, prófessor í fjölmiðlafræði við háskólann í Árósum, segir að Nyhedsavisen geti valdið hefðbundnum áskriftarblöðum í Danmörku miklum búsifjum. Þau hafi lítið breyst í 20 ár og hefðu gott af því að einhver ýtti við þeim.

Karl Pétur Jónsson, fulltrúi forstjóra Dagsbrúnar, segir erfitt að taka nýju fríblöðin tvö, sem stóru útgefendurnir standa að, alvarlega sem keppinauta og að sínu viti sér þar um hreina skemmdarverkastarfsemi að ræða.

Upplag Jótlandspóstsins, stærsta áskriftarblaðs Danmerkur, er aðeins tæplega 150 þúsund eintök á dag, en íslenska Fréttablaðinu er dreift í ríflega 100 þúsund eintökum. Þetta er til marks um tækifærin sem eru fyrir hendi í Danmörku og sýnir hvílíka sérstöðu Nyhedsavisen mun hafa, ef tekst að dreifa því inn á allt að 900 þúsund heimili.

Ítarleg úttekt er um fríblaðastríðið í Danmörku í Viðskiptablaðinu í dag.