Hægt hefur á dauða fríðblaða í heiminum á þessu ári en síðasta ár var sérstaklega slæmt. Á vef blaðamannafélagsins er sagt frá þróun fríblaða á síðastliðnum árum. Segir að í ár virðist það versta vera að baki, samkvæmt fríðblaða-vefsíðunni Newspaper Innovation.

Ástæður þess að mikill fjöldi fríblaða hætti útgáfu í fyrra er rakinn til annaðhvort samkeppnisaðstæðna þar sem að þau urðu undir eða vegna efnahagsástands. Á síðasta ári var hætt útgáfu á 42 titlum í 77 útgáfum. Það sem af er ári hafa einungis þrír titlar í fjórum útgáfum hætt útgáfu.

Í frétt á vef blaðamannafélagsins segir að útbreiðsla fríblaða hafi verið mest í Evrópu. Þar hafi samdrátturinn einnig verið mestur. Um 140 fríblöð voru gefin út í Evrópu árið 2007 í um 27 milljónum eintaka. Í ár eru um 87 titlar gefnir út og er útbreiðslan 19,3 milljón eintök.

„Því hefur verið velt upp hvort sjálf viðskiptahugmyndin um fríblöð sé því ekki að ganga upp, en samdrátturinn er hins vegar ekki einhlítur. Þannig hefur útbreiðslan og titlafjöldi dregist saman í Evrópu en ekki er að merkja nein slík merki í Rómönsku Ameríku og Asíu.  Newspaper Innovation stingur upp á því að markaður fyrir fríblöð hafi verið að leita jafnvægis eftir mikla útbreiðslu sprengingu og óvægna samkeppni.  Staðan sé því mun lífvænlegri í dag en áður þar sem færri titlar eru að slástu um hvert markaðssvæði. Þannig séu nú 3,6 titlar á hvert land í Evrópu á móti 4,7 titlum  á árunum 2007 og 2008,“ segir í frétt á vef félagsins.