Húsið við Ingólfsstræti 21 í Reykjavík sem embætti sérstaks saksóknara segir að hafi átt að flokkast sem gjöf í skattsvikamáli, er friðað enda með elstu húsum borgarinnar sem reist er úr steinsteypu. Breski fjárfestirinn Kevin Stanford og Katla Guðrún Jónasdóttir, þáverandi kona hans, keyptu húsið árið 2005.

VB.is sagði frá því í morgun að í ákæru í málinu hafi Katla Guðrún látið undir höfuð leggjast að telja húsið fram á skattframtali sínu. Í ákærunni segir að af þeim sökum vanti 77 milljónir króna upp á framtaldar tekjur.

Laxness skrifaði um húsið

Halldór Laxness.
Halldór Laxness.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Fram kemur á vef Minjastofnunar Íslands að húsið var reist árið 1903 og sé það fyrsta skýra dæmið hér á landi um steinsteypuklassík (nýrenesans í steypu). Það er sagt óvenju heilsteypt og formfagurt hús. Umhverfis glugga er klassískt, steinsteypt skraut og á úthornum eru steinhleðslur mótaðar í steypuna.

Ekki er vitað hver hannaði húsið en Halldór Þórðarson, bókbindari og forstjóri Félagsprentsmiðjunnar, bjó í því fyrstur manna. Stærstan hluta síðustu aldar bjó svo í því útgerðar- og athafnamaðurinn Óskar Halldórsson. Óskar er fyrirmynd Íslands-Bersa, sem Halldór Laxness skrifaði um í Guðsgjafaþulu, sem kom út árið 1972. Þetta reyndist síðasta skáldsaga skáldsins.

Þá segir á vef Minjastofnunar að Katrín Jakobsdóttir friðaði húsið í maí árið 2011.