Friðarsúlan í Viðey verður tendruð klukkan sex annað kvöld og mun loga fram að morgni daginn eftir. Þetta verður gert í tilefni af afmæli Yoko Ono sem er á morgun.

Á vef Reykjavíkurborgar segir að þegar Ono ákvað að staðsetja Friðarsúluna í Viðey vakti hún heimsathygli á Reykjavík og Íslandi sem friðelskandi þjóð. Tendrun súlunnar í október ár hvert nýtur mikilla vinsælda bæði meðal Íslendinga og erlendra ferðamanna sem margir hverjir koma um langan veg til þess að vera viðstaddir viðburðinn.

Í fyrra var slegið met í fjölda þátttakenda þegar 1800 manns sigldu yfir Sundið í boði Yoko Ono en þessi viðburður mun að öllum líkindum stækka ár frá ári.