Byrjað er að taka við umsóknum fyrir þriðja samfélagsverkefnahraðal Snjallræðis á vegum Höfða friðarseturs. Meðal ráðgjafa verkefnisins er Svafa Grönfeldt, sem er einn af stofnendum viðskiptahraðals MIT, DesignX í Boston, sem sent hefur leiðbeinendur í hraðalinn.

„Markmiðið með Snjallræði er að vera suðupottur og uppspretta lausna við áskorunum samtímans, en þetta er í þriðja sinn sem samfélagshraðallinn fer í gang. Kynningarfundur verður 7. janúar en allt að átta verkefni eru svo valin í átta vikna fræðslu og þjálfun með bæði innlendum og erlendum sérfræðingum á sviði samfélagsmála og nýsköpunar ásamt fundum með fjölda leiðbeinenda úr atvinnulífinu," segir Auður Örlygsdóttir verkefnastjóri Snjallræðis, samfélagshraðals á vegum Höfða friðarseturs.

„Í fyrri tveimur hröðlunum höfum við fengið samtals fimmtán samfélagssprota til þátttöku, en við höfum verið að fá um 40 umsóknir hvert ár. Í ár er framkvæmdin í samstarfi við Icelandic Startups, en við höfum fundið svolítið fyrir því að þurft hefur að koma fólki í skilning um hvað samfélagsleg nýsköpun þýðir svo það átti sig á því að hugmyndir þeirra geti átt heima í hraðlinum hjá okkur."

Höfða friðarsetri var komið á fót árið 2016 í samstarfi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar, en það er kennt við vettvang viðræðna Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta og Mikhaíls Gorbatsjev, aðalritara Sovétríkjanna, um kjarnorkuafvopnun.

Spennandi að koma í Höfða

„Tengingin við Höfða er táknræn þótt við höfum fengið að halda ýmsa flotta viðburði þar. Oft hefur fólk sem hefur ætlað að hitta á okkur mætt beint upp í Höfða enda fundist svo gríðarlega spennandi að komast þangað inn, en það er ekki alveg svo gott að starfsaðstaða okkar sé þar, heldur erum við uppi í Háskóla.

Verkefnið verður fljótt mun fjölbreyttara en önnur á vegum svona rannsóknarsetra sem starfa undir Alþjóðamálastofnun. Því eins mikilvægt og það er að stunda rannsóknir og halda ráðstefnur og viðburði sem halda á lofti umræðu um mikilvæg málefni þá vildum við líka vera með verkefni sem væri meira hönd á festandi," segir Auður.

„Í hraðlinum fá þátttakendur þjálfun frá leiðbeinendum, bæði úr háskólasamfélaginu hérna heima, en auk HÍ eru HR og LHÍ með okkur í þessu, sem og erlendis frá. Fjöldi annarra opinberra sem og einkaaðila koma jafnframt að verkefninu. Auk þess höfum við fengið sérfræðinga frá viðskiptahraðli MIT, DesignX, en Svafa Grönfeld, einn stofnenda hans, kveikti á hugmyndinni og vildi vera með okkur í þessu. Svava kom okkur í tengsl við frábæra leiðbeinendur sem hafa farið í gegnum allt hönnunarferli samfélagsverkefna með þátttakendum."

Innblásturinn fyrir Snjallræði var að sögn Auðar svokölluð friðartækni, eða Peace Tech, verkefni sem notar nútímatækni til að hjálpa til við að leysa ýmiss konar ágreining, aðstoða fólk á faraldsfæti og flótta við að finna ástvini og svo framvegis.

„Það er svo mikið af hugviti og tæknilausnum þarna úti sem gæti hjálpað mikið ef hægt væri að beina þeim í þann frjóa jarðveg og lausnamiðaða vettvang sem friðarstarfið er. Út frá smæð samfélagsins áttuðum við okkur fljótt á að við þyrftum að víkka þetta aðeins út svo þaðan kemur þessi samfélagslega nálgun á nýsköpun sem byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna," segir Auður.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .