Riftún ehf. hefur keypt allt hlutafé í bílaumboðinu Heklu, en Riftún er í eigu Friðberts Friðbertssonar, forstjóra bílaumboðsins. Fyrir kaupin átti Semler, sem á og rekur umboð fyrir Volkswagen bifreiðar í Danmörku (Volkswagen, Audi, Porsche, SEAT og Skoda), helmings hlut í félaginu.

Breytt eignarhald hefur verið til skoðunar um nokkurt skeið hjá okkur og það rímaði vel við framtíðarsýn Semler sem ætlar að einbeita sér enn frekar að danska markaðnum. Semler, sem hefur átt hlut í félaginu síðan 2013, hefur verið góður samstarfsfélagi og þetta hefur verið ánægjulegur tími ," segir Friðbert í tilkynningu um breytingu á eignarhaldi félagsins.

Framundan eru mjög spennandi tímar hjá fyrirtækinu, en Hekla hefur kynnt til sögunnar fjölmargar tegundir rafbíla sem hafa fengið afar góðar viðtökur. Á næsta ári munu nýir rafbílar bætast í hópinn og margar áhugaverðar nýjungar líta dagsins ljós. Ísland er leiðandi í innleiðingu rafbíla og sá reynslumikli og öflugi hópur sem starfar hjá fyrirtækinu er reiðubúinn til að takast á við nýja tíma. Ég er stoltur af þeim góða árangri sem félagið hefur náð á erfiðum tímum og ég er sannfærður um að með þessu skrefi verði félagið áfram leiðandi í sölu og þjónustu bifreiða ," segir Friðbert.

Lögfræðistofan Landslög og fyrirtækjasvið Arion banka voru ráðgefandi í ferlinu og viðskiptunum sjálfum. Nýja stjórn Heklu skipa Jón Eiríksson, sem jafnframt er stjórnarformaður, Margrét Guðmundsdóttir og Friðbert Friðbertsson.