Friðjón R. Friðjónsson, ráðgjafi, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 4. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Friðjóni en prófkjör flokksins fer fram þann 10. nóvember nk.

„Eitt mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnmála er að skapa skilyrði fyrir hagsæld. Það verður best gert með því að efla atvinnulífið svo að það geti ráðið fólk til starfa og greitt betri laun,“ segir í tilkynningunni.

„Burðarás íslensks atvinnulífs eru lítil og meðalstór fyrirtæki sem, rétt eins og almenningur, hafa mátt þola skattahækkanir og sívaxandi álögur undanfarin ár. Það er forgangsmál að vinda ofan af háskattastefnu ríkisstjórnarinnar til að vinna bug á atvinnuleysi, hvetja til fjárfestingar og örva hagvöxt.“

Friðjón hefur um árabil starfað í Sjálfstæðisflokknum og gengt þar ýmsum trúnaðarstörfum. Nú síðast var hann aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á árunum 2010 – 2011. Hann var 2. varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna á árunum 2003-2005. Auk þess hefur Friðjón starfað með margvíslegum hætti í kosningum og prófkjörum innan flokksins í gegnum árin.