Friðrik Þór Snorrason hefur ráðið sig sem forstjóra hjá Viss ehf. og verður einn af meðgeigendum félagsins. Friðrik er í dag forstjóri Reiknistofu bankanna (RB) og lætur af störfum þar í lok janúar eftir átta ára starf hjá félaginu. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir helgi hefur Ragnhildur Geirsdóttir aðstoðarforstjóri Wow air verið ráðin í hans stað hjá Reiknistofunni.

Friðrik Þór var áður framkvæmdastjóri tækni- og rekstrarþjónustu fyrirtækisins Skyggnis (nú partur af Origo) 2008-2011 og þar áður framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Nýherja. Friðrik starfaði á árunum 2000-2003 sem forstöðumaður hagdeildar STRAX í Bandaríkjunum.

Menntaður í Bendaríkjunum og Bretlandi

Friðrik lauk BA-prófi í alþjóðasamskiptum frá University of Wisconsin í Bandaríkjunum 1994 og meistaraprófi í sama fagi frá London School of Economics í Englandi 1996. Friðrik Þór Snorrason segir að kominn hefði verið tími til að leita á ný mið eftir að hafa stýrt víðtækum breytingum hjá RB á liðnum átta árum.

„Sprotastarfsemi og nýsköpun hefur alltaf heillað mig. Markmið okkar hluthafana hjá Viss er að stórefla þróun tæknilausna og þjónustu félagsins og að gera Viss að öflugum samstarfsaðila smásölu- og tryggingarfyrirtækja á Íslandi,“ segir Friðrik Þór.

Guðmundur Pálmason stjórnarformaður Viss segir það mikinn feng að hafa fengið Friðrik til liðs við okkur hjá Viss.„Friðrik er gríðarlega öflugur stefnumiðaður stjórnandi sem mun leiða þróun félagsins inn á ný mið lausna og þjónustu,“ segir Guðmundur.

„Ég kynntist Friðriki í gegnum STRAX snemma á hans ferli og áttaði mig fljótt á því hvaða mann hann hafði að geyma. Framundan er mikið uppbyggingarstarf sem verður spennandi fyrir starfsmenn, stjórnendur og stjórn að takast á við.
Ég vil á þessum tíma líka þakka Baldri Baldurssyni, fráfarandi framkvæmdastjóra Viss, fyrir samstarfið á liðnum árum.“

Um Viss ehf.

Viss er sprotafyrirtæki sem sett var á laggirnar í árslok 2014. Félagið býður tryggingar fyrir farsíma og er eina fyrirtækið á Íslandi sem býður upp á farsímatryggingar með lágri sjálfsábyrgð og víðtækri tryggingavernd.

Tryggingar félagsins eru seldar með nýjum farsímum hjá farsímafélögunum og fleiri viðurkenndum söluaðilum
Viss rekur einnig verkstæði fyrir farsíma og veitir þannig íslenskum tryggingafélögum, viðskiptavinum þeirra og farsímanotendum viðgerðarþjónustu og aðstoð við útskipti á skemmdum farsímum.

Viss er einnig viðurkenndur þjónustuaðili Apple á Íslandi og þjónustar Apple farsíma og tölvur í þeirra nafni.