Í viðtali við Friðrik Má Baldursson, forseta viðskiptadeildar HR, í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er m.a. fjallað um gjaldeyrishöftin og möguleikana á að aflétta þeim, hvenær sem það verður.

Annað stórt mál sem vegur þungt og enn hefur ekki verið fundin lausn á eru peningamál Íslendinga.

„Ég var einn af þeim sem töluðu áður fyrir einhliða upptöku nýs gjaldmiðils. Tæknilega séð er það í raun mjög lítið mál,“ segir Friðrik Már, aðspurður um þá umræðu sem nú er um upptöku annars gjaldmiðils.

„Ég hef þó miklar efasemdir um þá leið núna vegna þess að það er hætta á bankaáhlaupi í kjölfar slíkrar aðgerðar. En tækjum við upp annan gjaldmiðil einhliða þá ættum við að taka upp Bandaríkjadal. Bandaríkjadalur er ríkjandi í alþjóðlegum viðskiptum. Þar að auki er bandaríski seðlabankinn leiðandi seðlabanki og vextir hans eru ráðandi í heiminum.“

Þá víkur Friðrik Már að umræðunni að Kanadadollar sem margir hafa nefnt í þessu samhengi.

„Kanadadollar er lítil mynt og ef við ætlum að fara í einhliða upptöku þá ættum við að skoða stærri myntir. Ef það kemur í ljós að þeir eru viljugir í tvíhliða samstarf þá er það möguleiki sem við ættum að skoða. En þá má gera ráð fyrir því að þeir vilji hafa mikið að segja um ríkisfjármálin. Það sama ætti við um Norðmenn ef við horfum í hina áttina.“

Loks nefnir Friðrik Már inngöngu í ESB og upptöku evru en hann telur þó að það myndi taka nokkur ár frá inngöngu í sambandið að taka upp evru hér á landi.

„Hvað sem má segja um evruna og evrusvæðið, þá geta menn samt reitt sig á evrópska seðlabankann þegar til myntsamstarfs kæmi milli hans og Íslands. Það er því ein möguleg leið til að aflétta gjaldeyrishöftum áfallalaust. En þar gildir það sama, þróunin þar er á þann veg að ríkisfjármálum verður í auknum mæli miðstýrt af sambandinu sjálfu,“ segir Friðrik Már.

Nánar er rætt við Friðrik Má í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar fjallar hann m.a um stöðu viðskiptafræðináms hér á landi, hvernig tekist hefur til við endurreisn hagkerfisins, um peningamálin og gjaldeyrishöftin, stöðu Landsvirkjunar á raforkumarkaði og loks ákvörðun sína um að styðja við frágang síðustu Icesave-samninganna. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.