Á fyrirlestrarmaraþoni í HR í lok apríl hélt Friðrik Már Baldursson, forseti viðskiptadeildar HR, áhugaverðan fyrirlestur um skipulag á raforkumarkaði. Þar fór hann m.a. yfir hlutverk Landsvirkjunar og sagði fyrirtækið nær allsráðandi á þessum markaði.

„Landsvirkjun er yfirgnæfandi í orkuvinnslu en á meðan fyrirtækið misnotar ekki þá aðstöðu er í sjálfu sér ekkert athugavert við það,“ segir Friðrik Már aðspurður um þetta í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

„Það takmarkar hins vegar verulega möguleikana á að koma á virkum samkeppnismarkaði að eitt fyrirtæki sé svo ráðandi. Til dæmis er erfitt að sjá fyrir sér að virkur tilboðsmarkaður með raforku geti myndast við þessar aðstæður.“

Geturðu úrskýrt það nánar?

„Í öllum löndum þar sem frelsi hefur verið komið á í raforkuviðskiptum fer verðmyndun fram á tilboðsmarkaði, raforkukauphöll, þar sem verð myndast til skamms tíma, venjulega eins dags í senn. Þetta verð er síðan grunnurinn að samningsverði til lengri tíma. Virkur markaður af þessu tagi er lykilatriði í því að samkeppni myndist í viðskiptum með raforku,“ segir Friðrik Már.

Aðspurður hvort hann telji betur fallið að einkavæða Landsvirkjun segist Friðrik Már telja að betra hefði verið að hafa einkaaðila með við samningaborðið þegar gengið var til fyrrnefndra samninga.

„Þeir hefðu lagt meiri áherslu á arðsemi orkusölunnar og væntanlega hefði náðst betra verð,“ segir Friðrik Már.

„Landsvirkjun skuldar nú um 3 milljarða Bandaríkjadala, tæplega 400 milljarða króna, og áætlar að fjárfesta fyrir 5 milljarða Bandaríkjadala til viðbótar á næstu árum. Fjárfestingar Landsvirkjunar hafa nánast alfarið verið fjármagnaðar með lántökum, þ.e. skuldir hækka þá í um 8 milljarða dala, 1000 milljarða króna og 60% af landsframleiðslu. Þetta er allt með ríkisábyrgð og að langmestu leyti óbein fjárfesting í álframleiðslu. Mér finnst að það ætti frekar að vinda ofan af núverandi stöðu fremur en að bæta í þessa áhættu ríkissjóðs. Það má gera með því að bjóða einkaaðilum að gerast meðeigendur í Landsvirkjun.“

Nánar er rætt við Friðrik Má í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar fjallar hann m.a um stöðu viðskiptafræðináms hér á landi, hvernig tekist hefur til við endurreisn hagkerfisins, um peningamálin og gjaldeyrishöftin, stöðu Landsvirkjunar á raforkumarkaði og þá ákvörðun sína um að styðja við frágang síðustu Icesave-samninganna. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.