Eins og stendur er lítill hvati fyrir hvern einstakan aðila til að taka þátt í áætlun Seðlabankans um afnám hafta, að sögn Friðriks Más Baldurssonar, á fundi SA um gjaldeyrishöft. Benti hann á að þótt lífeyrissjóðir séu stærstu seljendur gjaldeyris þá sé margt sem mæli gegn því að þeir geri það. Áhættudreifing myndi minnka með minnkandi erlendum eignum og þá er spurning af hverju þeir eiga að selja erlendan gjaldeyri núna ef útlit er fyrir frekari lækkun krónunnar.

Hvað varðar kauphliðina segir hann að eigendur aflandskróna vilji ekki taka á sig of mikil afföll miðað við opinbera gengið og þeir vilja heldur ekki læsa sig inni í löngum krónupappírum. Að lokum bíða þeir eftir því að við göngum í ESB. Í raun snúist vandinn um að margir þeirra vilja ekki selja sig út núna ef útlit er fyrir að þeir verði keyptir út á hærra verði síðar.

Trúverðugar hótanir

Friðrik segir því að ef markmiðið er að setja meiri hraða í afnám hafta verði að búa svo um hnútana að það sé betra að taka þátt í aðgerðum strax en að bíða. Ef tímasetja eigi aðgerðir verði gera það þannig að næsta skref verði óhagstæðara en yfirstandandi skref. Nota verði gulrætur og lurka á kaupendur og seljendur aflandskróna.

Hann segir að hótunin núna virðist einkum vera sú að gengi krónunnar muni falla við afnám hafta. Það kunni að virka á aflandskrónueigendurna, en virki þveröfugt á eigendur erlends gjaldeyris, því þeir vilji síður kaupa krónur ef útlit er fyrir gengishrun við afnám hafta.