Íslenska krónan er viðskiptahindrun, sagði Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskólann í Reykjavík, á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í dag. „Hann verður alltaf Þrándur í götu erlendra fjárfesta. Það er óhjákvæmilegt,“ sagði hann. Hann sagði að það væru sífellt fleiri að komast á þá skoðun að það yrði í raun að velja á milli sjálfstæðrar peningastefnu og frjáls flæðis fjármagns. „Við héldum að svigrúm peningastefnunnar væri miklu meira en það er,“ sagði Friðrik Már. Hann sagði að gjaldmiðillinn yrði alltaf ákveðin hindrun. Það væri þó hægt að ná betri árangri með krónuna með bættri hagstjórn og aga.

Þá sagði Friðrik Már að takmarkanir á erlendar fjárfestingar hér væru með því mesta sem gerist innan OECD. Tolla- og vörugjaldakerfið væri mjög óskýrt. „Maður spyr síg hver sé tilgangurinn með þessu kerfi. Er það tekjuöflun? Varla. Eða er það óbeinar viðskiptahindranir? Það er augljóst að þetta er eitthvað sem við þurfum að bæta ef við viljum auka samkeppnisfærni og bæta lífskjör,“ sagði Friðrik Már.

Þá sagði Friðrik Már Baldursson að fjárfesting hefði ekkert náð sér á strik þó að hagvöxtur hafi náð sér á strik. Þetta er áhyggjuefni. Vegna þess að þetta gefur í skyn einhverja vantrú á framtíðina,“ sagði Friðrik Már. Það að aðilar hér í hagkerfinu treysti sér ekki til að fjárfesta sýni að þeir hafi einhverskonar vantrú á að hér sé bjart framundan