Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, segir ljóst að fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum muni hafa áhrif á ríkissjóð og sveitafélög. Hann segist fljótt á litið telja að kostnaðurinn fyrir þau geti farið allt upp í 20 milljarða króna.

Þar er Friðrik að tala um fyrirhugaða skattaívilnun vegna séreignarlífeyrissparnaðar, en unnt verður að ráðstafa séreignarlífeyrissparnaði til lækkunar höfuðstóls. Tekjuskattur og útsvar mun því lækka sem nemur þessum skattafrádrætti.

Þá segir Friðrik Már óvíst hverjar afleiðingar aðgerðanna kunni að verða fyrir Íbúðalánasjóð og Landsbankann en báðar stofnanirnar eru í eigu ríkisins. Rekstur Íbúðalánasjóðs hefur verið erfiður allt frá hruni og hefur ríkið sett um 40 milljarða í nýtt eigið fé sjóðsins.