Friðrik Már Baldursson, forseti viðskiptadeildar HR , studdi á sínum tíma Icesave-samningana, eða í það minnsta að skrifað yrði undir hina svokölluðu Icesave II og III samninga, og varaði við ákveðnum efnahagsþrengingum ef ekki yrði gengið frá þessum samningum.

Í viðtali við Viðskiptablaðið rifjar blaðamaður þetta upp og spyr Friðrik Má hvort hann sé enn á þeirri skoðun að betra hefði verið að skrifa undir samningana.

„Hvað síðustu samninga varðar þá er ég enn sannfærður um að það hefði verið rétt að samþykkja þá, í það minnsta frá efnahagslegum forsendum,“ segir Friðrik Már.

„Síðan geta menn auðvitað haft aðrar skoðanir hvað varðar lagahlutann. Við skulum ekki gleyma því að það er dómsmál í gangi og við vitum ekki hvernig það fer. Ef við vinnum það er málið væntanlega búið. Ef við töpum vitum við ekkert hvernig þetta mál endar. Ég vil nú samt taka fram að ég er ekki hrifinn af því að við förum að taka á okkur kostnað og greiða eitthvað sem okkur kannski ber ekki að greiða, þvert á móti. En á meðan málinu er ekki lokið þá sitjum við uppi með ákveðna áhættu.“

Fyrri samningurinn sem greitt var atkvæði um var samþykktur af Alþingi í lok árs 2009 en í mars 2010 var greitt um hann atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað þann samning varðar segir Friðrik Már að hann hafi byggt ákvörðun sína á ákveðnu stöðumati. Stór hluti þeirra lána sem áttu að koma til með áætlun AGS átti að koma frá Norðurlandaþjóðunum.

„Norrænir vinir okkar og frændur neituðu okkur um það fjármagn sem búið var að semja um í samstarfi við AGS nema gengið yrði frá Icesave-samkomulaginu,“ segir Friðrik Már.

„Ég vissi að það væri stór gjalddagi á lánum hjá ríkissjóði í lok árs 2011 og hafði áhyggjur af því að við gætum ekki staðið í skilum ef við fengjum ekki endurfjármögnun. Ríkissjóður hefur alltaf staðið í skilum á lánum sínum og þarna taldi ég að í fyrsta skipti yrði ekki til fjármagn. Ég var að vísu á þeirri skoðun að menn hefðu átt að gefa sér lengri tíma til að semja en þarna var ákveðið samkomulag sem lá fyrir og menn þurftu að taka afstöðu til. Af tveimur slæmum kostum þá taldi ég að verið væri að velja skárri kostinn með því að ljúka málinu með fyrirliggjandi samningum.“

Nánar er rætt við Friðrik Má í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar fjallar hann m.a um stöðu viðskiptafræðináms hér á landi, hvernig tekist hefur til við endurreisn hagkerfisins, um peningamálin og gjaldeyrishöftin, stöðu Landsvirkjunar á raforkumarkaði og loks þessa ákvörðun sína um að styðja við frágang síðustu Icesave-samninganna sem fjallað er  um hér að ofan. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.