Friðrik Már Baldursson, Ragnar Árnason og Már Guðmundsson eru hæfastir umsækjenda til að gegna stöðu Seðlabankastjóra. Þetta er Samkvæmt umsögn nefndar sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í lok júní, til að leggja mat á hæfi umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra. Þessu greinir Kjarninn frá.

Við mat á hæfni umsækjenda var lagt fyrir nefndina að hafa til hliðsjónar; menntun, starfsferil, reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum, stjórnunarhæfileika og loks hæfni í mannlegum samskiptum.Þannig mat nefndin hvern umsækjenda fyrir sig að hann var ýmist mjög vel hæfur, vel hæfur, hæfur eða ekki hæfur í hverjum þætti fyrir sig.

Í lögum um hæfi seðlabankastjóra er kveðið á um að hann skuli búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum. Auk þess skal samkvæmt lögum seðlabankastjóri hafa lokið háskólaprófi í hagfræði eða tengdum greinum.

Samkvæmt útreikningi Kjarnans eru þeir Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason hnífjafnir í kapphlaupinu um seðlabankastjórastöðuna, ef hæfi þeirra er miðað út frá stigagjöf. Þeir hlutu allir tólf stig, Lilja Mósesdóttir og Þorsteinn Þorgeirsson fengu ellefu stig, Yngvi Örn Kristinsson tíu og Ásgeir Brynjar Torfason rak lestina með níu stig.

Nefndina um hæfi umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra skipa Guðmundur Magnússon , fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, Ólöf Nordal , fyrrverandi varaformaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi formaður bankaráðs Seðlabankans, og Stefán Eiríksson lögfræðingur og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.

Hér fyrir neðan má sjá umsækjendur um stöðu seðlabankastjóra:

Ásgeir Brynjar Torfason
Friðrik Már Baldursson
Haukur Jóhannsson
Íris Arnlaugsdóttir
Lilja Mósesdóttir
Már Guðmundsson
Ragnar Árnason
Sandra María Sigurðardóttir
Yngvi Örn Kristinsson
Þorsteinn Þorgeirsson