Ríkisstjórnin hamast nú við að koma afar umdeildum frumvörpum í gegnum þingið, en vanrækir að láta skoða og finna lausnir á stóru viðfangsefnunum, sem hafa úrslitaáhrif fyrir framtíðarlífskjör þjóðarinnar.

Þetta segir Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka og fv. ráðherra, í grein í áramótatímariti Viðskiptablaðsins þar sem hann fjallar um störf ríkisstjórnarinnar og síðustu mánuðina fram að kosningum.

„Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms reynir að troða stjórnarskrárdrögum Stjórnlagaráðs í gegnum þingið á methraða, án nægrar umræðu, án sjálfstæðrar efnislegrar skoðunar og í andstöðu við fjölda fræðimanna og stjórnarandstöðuna í stað þess að setja stjórnarskrá í sátt við þjóð og þing,“ segir Friðrik í grein sinni.

„Ríkisstjórnin rembist við að breyta kvótakerfinu, þótt hún hafi nú þegar stóraukið skatta á sjávarútveginn og fyrir liggi að breytingarnar leiði til meiri kostnaðar og lakari lífskjara þjóðarinnar. Og ríkisstjórnin heldur áfram að semja um inngöngu í Evrópusambandið, þótt annar stjórnarflokkurinn og stærsti hluti stjórnarandstöðunnar sé á móti aðild og allar skoðanakannanir bendi til þess að meirihluti þjóðarinnar sé það einnig.“

Friðrik segir að þessi mál séu öll tímafrek og hafi í raun ekkert með bankahrunið að gera og engin nauðsyn sé að ljúka þeim fyrir næstu kosningar. Þá nefnir Friðrik þrjú önnur viðfangsefni, sem eru bein afleiðing hrunsins og fást þurfi við að hans mati. Þar nefnir Friðrik gjaldeyrishöftin, stöðu Íbúðalánasjóðs og loks skuldbindingar opinberra lífeyrissjóða.

„Sum þessara mála sem hér eru nefnd má leysa skjótt en önnur taka tíma,“ segir Friðrik.

„Öllu máli skiptir að stjórnmálamenn skýri stöðuna fyrir landsmönnum fyrir kosningar, þannig að fólk skilji hvernig ástandið er í raun og veru, og bendi síðan á færar leiðir út úr vandanum. Það er ekki sama hvernig á þessum málum er tekið. Lausnirnar hafa áhrif á lífskjör okkar allra til lengri og skemmri tíma.“

Sjá grein Friðriks í heild sinni hér.