Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka og fyrrv. forstjóri Landsvirkjunar, segir að óvissa vegna væntanlegra breytinga á rammaáætlun og á fiskveiðistjórnkerfinu hafi haft slæm áhrif á fjárfestingar fyrirtækja.

Þetta kom fram í ræðu Friðriks á aðalfundi Íslandsbanka sem fram fór í dag.

Friðrik lagði í ræðu sinni áherslu á að verulegar breytingar á fiskveiðikerfinu myndu draga úr arðsemi starfandi sjávarútvegsfyrirtækja og geta haft áhrif á verðmæti lánasafna íslenska bankakerfisins.

Þá sagði Friðrik að þrátt fyrir að aðstæður í íslensku atvinnulífi hafi batnað frá efnahagshruni stæðu íslensk fyrirtæki og stjórnvöld frammi fyrir afar mikilvægum viðfangsefnum. Afar brýnt væri að stjórnvöld mótuðu skýra og trúverðuga stefnu um afnám gjaldeyrishafta á næstunni. Hann hvatti stjórnvöld og Seðlabanka til að leita eftir víðtæku samstarfi við innlenda og erlenda aðila um að losa hagkerfið úr viðjum gjaldeyrishafta eins fljótt og unnt er.

Friðrik fjallaði einnig um nýútkomna skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarfyrirkomulag fjármálakerfisins. Hann lýsti sig sammála þeirri þeim sjónarmiðum sem fram koma í skýrslunni um að ekki sé tímabært að velta fyrir sér aðskilnaði starfsemi fjárfestingabanka og viðskiptabanka hér á landi þar sem fjárfesting væri í lágmarki.

Sjá ræðu Friðriks í heild sinni.