Fjárþörf Ríkisútvarpsins á árinu 2014 er 654 milljónir en var 410 milljónir árið 2013. Ef fjárfestingar samkvæmt sjóðstreymi, greiddir vextir og afborganir lána eru dregin frá veltufé frá rekstri, fyrir vexti og skatta, er niðurstaðan sú að fjárþörf er mikil.

Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Skjásins, segir stjórnarmenn RÚV vera á undarlegri vegferð. „Umræðan um RÚV tók á sig alveg nýja mynd í tveimur kvöldfréttatímum Sjónvarpsins. Þar lýsti brúnaþungur fréttamaður í máli og myndum þeirri vá sem nú steðjaði að RÚV með stórfelldum niðurskurði til félagsins af almannafé. Þeir á Sovéttímunum hefðu ekki getað gert þetta betur. Í stað niðurskurðar er verið að bæta við útgjöld til RÚV úr ríkissjóði. Framlög til félagsins hafa aldrei verið hærri en árið 2014.“

Friðrik segir að í áróðursbaráttu sinni segi Ingvi Hrafn Óskarsson, núverandi formaður stjórnar RÚV, rangt til um þróun auglýsingatekna. „Hann heldur því fram að þær hafi lækkað vegna girðinga sem sett voru í löggjöf um hámark. Þetta er rangt og ég hvet Ingva til sanna þetta. Hið rétta er að markaðurinn hefur verið daufur og það hefur einfaldlega orðið samdráttur í auglýsingatekjum, en ekki af völdum stjórnvalda.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .