Friðrik Þór Friðriksson hefur verið settur rektor Kvikmyndaskóla Íslands fram til áramóta. Hann tekur við starfinu af Hilmari Oddssyni sem hætti nú í vor eftir farsælt 7 ára starf. Þetta kemur fram í tilkynningu Kvikmyndaháskóla Íslands.

Friðrik Þór er einn þekktasti kvikmyndagerðarmaður okkar Íslendinga og á að baki langan og farsælan feril bæði sem leikstjóri og framleiðandi. Hann hefur gert tilraunamyndir, heimildarmyndir og leiknar bíómyndir. Í öllum flokkum á hann myndir sem teljast verða klassík íslenskri kvikmyndasögu. Friðriki Þór hefur hlotnast mikill fjöldi verðlauna og viðurkenninga á ferlinum en hans þekktasta verk er Börn náttúrunnar sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna.

Friðrik Þór hyggst leggja áherslu á að bæta kvikmyndagerð skólans enn frekar og að standa við bakið á nemendum í þeirra kvikmyndagerð. „Það er mikill fengur fyrir Kvikmyndaskólann að fá Friðrik Þór við stjórnvölinn,“ segir að lokum í tilkynningunni.