Laundromat í Austurstræti er rekið af Laundromat Reykjavík ehf. sem er í eigu Halls Dan Johansen og Valgarðs Þórarins Sörensen. Reksturinn gengur vel að sögn Valgarðs þrátt fyrir byrjunarerfiðleika í kjölfar þess að einungis var gert ráð fyrir að ráða 25 manns í byrjun en svo reyndist starfsmannaþörfin mun meiri eða um 70 manns.

Friðrik fær hlutfall af veltu

Friðrik Weisshappel athafnamaður sem er í forsvari fyrir staðinn er ekki einn af eigendum en Valgarð segir að um hefðbundið sérleyfishafasamkomulag (e. franchise) sé að ræða við Friðrik. Hann vinnur með eigendum Laundromat og Valgarð segir samstarfið ganga mjög vel og verið sé að skoða frekara samstarf. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins felst samkomulagið við Friðrik m.a. í því að hann fær ákveðið hlutfall af veltu staðarins.

Steinn Einar Jónsson er rekstrarstjóri Laundromat og kemur til með að verða einn af eigendum staðarins.

Selja Austur

Hallur Dan og Valgarð eru ekki nýir í veitingarekstri því þeir stofnuðu skemmtistaðinn Austur í sameiningu en verið er að ganga frá sölu á þeim stað. Valgarð bendir á að Austurstrætið hafi lifnað við frá því að þeir félagar hófu starfsemi þar fyrir þremur árum, fyrst með Austur og nú með Laundromat þar sem opið er allan daginn, og stöðugt líf sé í kringum staðinn.