„Við hjá Fríhöfninni erum alveg í skýjunum með þessi verðlaun,“ segir Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar í Flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Fríhöfnin er sigurvegari í flokki fríhafna í Evrópu samkvæmt vali tímaritsins Business Destinations. Verðlaun heita eftir tímaritinu, „The Business Destinations Travel Awards“. Þau njóta virðingar í alþjóðlegri ferðaþjónustu og eru nú veitt í fimmta sinn. Fjallað er um verðlaunin og verðlaunahafana í sérstökum viðauka með því hefti tímaritsins sem kom út þann 28. nóvember.

Fram kemur í tilkynningu frá Fríhöfninni um veitingu verðlaunanna að yfirlýst markmið með veitingu verðlaunanna er að vekja athygli á þeim aðilum sem hafa náð athyglisverðum árangri í rekstri og eða nýsköpun og snjöllum lausnum á hinum ólíku sviðum ferðaþjónustunnar. Verðlaunin eru flokkuð niður eftir heimsálfum og er framúrskarandi fyrirtækjum á ýmsum sviðum í hverri heimsálfu veitt viðurkenning.

Bestu fríhafnarverslanirnar í öðrum heimsálfum voru valdar Duty Free Americas, sem rekur fríhafnarverslanir á tíu flugstöðvum í Bandaríkjunum;  Dubai Duty Free var valin besta fríhöfn Miðausturlanda; Global Blue var valin besta fríhafnarþjónusta Suður-Ameríku;  China Duty Free Group hlaut viðurkenninguna í Asíu, SYD Airport & Duty Free í Sidney var valin besta fríhafnarverslunin í Eyjaálfu og IDFS í Marokkó var valin besta fríhafnarverslun Afríku.

Velta hefur aukist um 44% á þremur árum

Haft er eftir Ástu Dís í tilkynningunni að viðurkenningin hafi mikla þýðingu þar sem þau séu  staðfesting á þeim árangri sem starfsfólk Fríhafnarinnar hafi náð með endurskipulagningu á rekstrinum og endurmörkun fyrirtækisins síðustu ár. Af þeim sökum standi slagorðið Fríhafnarinnar svo sannarlega undir nafni. Slagorðið er „þess virði að upplifa.“ Ásta Dís bendir á að verslanir Fríhafnarinnar hafi verið endurhannaðar, nýjar verslanir teknar í notkun, áherslum í rekstri breytt og vöruúrval stóraukið. Stefna fyrirtækisins er að leggja áherslu á vörur sem ekki eru á innanlandsmarkaði, að kynna og selja íslenskar vörur og íslenska hönnun, ekki síst tískufatnað sem og vöruþróun með íslenskum birgjum. Þetta hefur skilað sér í því að velta Fríhafnarinnar hefur aukist um 44% síðan árið 2010 og sé það líklega ein mesta veltuaukning fríhafna í Evrópu.

© Aðsend mynd (AÐSEND)