Þrettán styrkir upp á samtals 2,5 milljónir króna voru í dag veittir úr umhverfissjóði Fríhafnarinnar. Þórólfur Árnason, stjórnarformaður Fríhafnarinnar, setti athöfnina og Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, afhenti styrkina við hátíðlega athöfn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Þetta er annað árið sem styrkir eru veittir úr umhverfissjóðnum. Sjóðurinn var stofnaður  í maí árið 2012 með það að markmiði að styrkja verkefni á sviði umhverfisverndar, með áherslu á nærsvæði starfsstöðva Fríhafnarinnar. Samþykkt var að 5 krónur af hverjum seldum plastpoka skyldu renna í sjóðinn.

Þessi hlutu styrk

  • Keflavíkursókn hlaut styrk til grænmetisræktunar.  Verkefnið Letigarðar í Keflavíkurkirkju er verkefni Keflavíkursóknar en kirkjan hlaut styrk til grænmetisræktunar.
  • Þekkingarsetur Suðurnesja. Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum og Náttúrustofa Suðvesturlands hafa undanfarið unnið að grunnrannsóknum á fjörusvæðum á Reykjanesskaganum og kortlagningu á vistfræði fjara á Suðvesturlandi.
  • Leikskólinn Holt sem er umhverfisvænn leikskóli hlaut styrk til áframhalds verkefnis í umhverfismálum.
  • Keilir – Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs hlaut styrk sem lýtur að því að fá ungt fólk og listamenn (bæði innlenda og erlenda) til að búa og starfa á Ásbrú í skemmri tíma við listsköpun.
  • Skotdeild Keflavíkur hlaut styrk til umhverfisátaks og uppbyggingar á skotsvæði félagsins á Hafnarheiðinni. Verkefnið er til þess fallið að fegra svæðið og rækta landið.
  • Myllubakkaskóli vinnur að uppbyggingu á útikennslusvæði við gamla Miðtúnsróló.
  • Ungmennafélagið Þróttur hlaut styrk til gróðursetningar trjáa og fegrunar svæðis við knattspyrnuvöllinn í Vogum.
  • Lionsklúbbur Grindavíkur hlaut styrk til gróðursetningar trjáplanta á svæði við Grindavík ásamt því að útbúa göngustíga og setja upp skilti og merkingar fyrir útivistafólk.
  • Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Keflavíkur hlaut styrk til að fegra umhverfi keppnis- og æfingasvæði  barna og unglinga.
  • Ungmennafélag Njarðvíkur (UMFN) hlaut styrk til gróðursetningu trjáa við keppnis- og æfingasvæði deildarinnar í Njarðvík. Markmið þessa verkefnis er að bæta og fegra aðstöðu svæðisins.
  • Áhugahópurinn Heiðafélagið hlaut styrk til gróðursetningar trjáa á Miðnesheiðinni í nágrenni flugstöðvarinnar.  Heiðafélagið leggur til mótframlag sem felst í gróðursetningu á trjánum ásamt því að útvega verkfæri og áburð.
  • Blái herinn vinnur allan ársins hring að hreinsunarverkefnum ásamt því að fræða leikskólabörn um náttúruna og umhverfið.
  • Skógræktarfélag Grindavíkur leggur göngustíg að fallegum útsýnisstað  sem sýnir miklar andstæður í náttúrunni þ.e. skóg, hraun, Bláa lónið og jarðvarmavirkjun, stígurinn verður fyrir ofan Selskóg við Þorbjörn og hlaut skógræktunarfélagið styrk til þessa verkefnis.