*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 24. júní 2012 13:57

Frímerkið yfir hundraðkallinn

Burðargjald hjá Íslandspósti fyrir bréf mun vera 120 krónur frá og með júlí næstkomandi. Verðið hefur rokið upp síðasta ár.

Gísli Freyr Valdórsson
Aðsend mynd

Póst og fjarskiptastofnun samþykkti nýlega beiðni Íslandspósts um gjaldskrárhækkun. Í júlí tekur gildi ný gjaldskrá sem þýðir að burðargjald fyrir bréf undir 50 g verður 120 kr. en það er í dag 97 kr. 

Rétt er að taka fram að Íslandspóstur hefur einkarétt á því að bera út bréf undir 50 g. Þetta þýðir að gjaldskrá Íslandspósts fyrir bréf sem dreift er í einkarétti hefur nú hækkað um 140% á sjö árum, eða frá því vorið 2005. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 60%. Burðargjald á fjölpósti hefur á sama tímabili einungis hækkað á bilinu 13-16% en Íslandspóstur dreifir fjölpósti í samkeppni við einkaaðila. 

Eins og fram kemur í umfjöllunum um málið í Viðskiptablaðinu hefur verð á pósti í einkaréttarhlutanum rokið upp síðustu ár. Frá árinu 2004 hefur hagnaður Íslandspósts vegna útburðar á einkaréttarhlutanum hins vegar snarminnkað og síðustu árin hefur sá liður rekstrarins verið rekinn með miklu tapi. 

Rétt er að taka fram að gjaldskrá félagsins á pósti í einkaréttarhlutanum hækkaði ekkert á árunum 2002-4, eða ekki fyrr en í maí 2005. Þá er einnig rétt að taka fram að magn pósts í einkaréttarhlutanum fór ekki að minnka að ráði fyrr en haustið 2008 og hefur síðan þá minnkað um 32%. 

Mest hefur gjaldskrárhækkunin verið frá því í maí 2011, en síðan þá hefur gjaldskrá Íslandspósts á pósti sem dreift er í einkarétti verið hækkuð fjórum sinnum. Á rúmu ári hefur gjaldskráin því hækkað um 60%. Verð á fjölpósti hefur ekkert hækkað á sama tíma. 

 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu en þar svarar Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, m.a. fyrir hækkunina. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.

Stikkorð: Íslandspóstur