Friðrik Skúlason ehf. hefur ákveðið að stórlækka upphafsverð á fyrirtækjaútgáfu vírusvarnarinnar Lykla-Pétur eða um 60% til að koma til móts við fyrirtæki í síharðnandi rekstrarumhverfi segir í tilkynningu.

Þar segir að þegar erlendar vírusvarnir hækka umtalsvert út af gengi krónunnar þá er íslenska vírusvörnin Lykla-Pétur einfaldlega hagkvæm. Öll þjónusta er líka innanlands. Meðal annarra breytinga sem fyrirtækið kynnir er að við endurnýjun á ársáskriftinni er verðið síðan það sama og upphafsverð.

Í tilkynningu segir að þessar breytingar hafa í för með sér jafnari dreifingu á kostnaði við að halda uppi öryggishugbúnaðinum. Einnig höfum við bætt við Small Business útgáfu. Hún er hugsuð fyrir lítil fyrirtæki sem vilja gjarnan nota sama leyfið á heimilistölvum.

Þannig má setja vírusvörnina hvort sem er á fyrirtækistölvur eða heimilistölvur, fyrir allt að 5 vélar. Þessi áskrift kostar árlega kr.7.900 m/vsk Svo viljum við líka minna á að við bjóðum 25% afslátt fyrir skóla og góðgerðafélög.

Lykla-Pétur (F-PROT Antivirus) er reglulega sent í prófanir á virkni vírusvarnarinnar og fékk nú síðast í desember 2009 VB100 gæðastimpilinn frá hinu virta Virus Bulletin magazine. Virus Bulletin er óháður aðili sem prufukeyrir allar helstu vírusvarnir heims.