Sú gagnrýni sem beinst hefur að bönkunum og umsvifum þeirra á fyrirtækjamarkaði er skiljanleg.  Sú umræða grundvallast á tortryggni og ljóst er að við þurfum að draga úr henni með öllum ráðum. Leiðin til þess er aukið gagnsæi.

Þetta sagði Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, í ræðu sinni á aðalfundi bankans fyrr í dag.

Friðrik sagði að Íslandsbanki hefði þá yfirlýstu stefnu að koma þeim fyrirtækjum, sem bankinn eignast með þessum hætti, sem fyrst í hendur annarra rekstraraðila enda væri það sjónarmið stjórnarinnar að  bankar séu almennt ekki góðir eigendur rekstrarfélaga.

„Íslandsbanki hefur á liðnu starfsári verið í fararbroddi þegar kemur að því að selja fyrirtæki í opnu og gagnsæju ferli. Ég leyfi mér að fullyrða að bankinn hafi markað ákveðna stefnu í þeim efnum sem aðrir aðilar á markaðnum hafa tekið sér til fyrirmyndar,“ sagði Friðrik.