Sem kunnugt er tók Friðrik Sophusson nýlega við stjórnarformennsku í Íslandsbanka í lok janúar sl.

Í samtali við Viðskiptablaðið þá sagði Friðrik að bankinn yrði varkár og hóflega áhættusækinn og að lögð yrði áhersla næstu misserin á að endurskipuleggja fjármál og lánamál viðskiptavina bankans, bæði fyrirtækja og einstaklinga.

Friðrik segist mjög spenntur fyrir því að taka þátt í því endurreisnarstarfi sem nú eigi sér stað.

„Það eru komin um 20 ár síðan ég sat í bankaráði Landsbankans, sem þá var ríkisbanki. Það er tvennt ólíkt og það er gaman að sjá muninn og að vinna fyrir banka sem stefnt er að því að verði einkabanki í framtíðinni,“ segir Friðrik.

„Það er enginn vafi á því í mínum huga að Íslandsbanki hefur náð ákveðinni forystu í þessari endurreisn og það byggist fyrst og fremst á því að fólkið í bankanum er mjög áhugasamt um það sem það er að gera og vill endurvekja traust á bankanum. Öll fjármálastarfsemi snýst um traust og mér sýnist að bankanum hafi tekist mjög vel að endurskipuleggja þau fyrirtæki sem hann hefur haft afskipti af án þess að sitja með meirihlutaeign í fyrirtækjunum til lengri tíma.“

Er það markmið út af fyrir sig að sitja ekki uppi með fyrirtæki?

„Bankar freistast stundum til þess að eiga of lengi í fyrirtækjum sem þeir hafa tekið yfir í þeirri von að geta selt þau á hærra verði síðar,“ segir Friðrik.

„Hættan er hins vegar sú að bankar sitji uppi með fyrirtækin í langan tíma meðan beðið er eftir betri tíð. Flest fyrirtæki eiga í samkeppni við önnur sem ekki eru háð neinum banka. Setji bankarnir sífellt meira eigið fé í „sín“ fyrirtæki getur það orðið til þess að samkeppni raskist.“

_____________________________

Nánar er rætt við Friðrik í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag. Þar tjáir Friðrik sig nánar um ríkisfjármálin, breytt skattkerfi og orkumálin. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .