Eignarhaldi banka er best komið í höndum einkaaðila sem bera ábyrgð á þeim. Auðvitað þurfa  eigendur bankanna að gang vel um eign sína og efla traust á starfsemi þeirra fremur en að líta á þá sem einhverskonar einkasjóði.

Þetta sagði Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, í ræðu sinni á aðalfundi bankans fyrr í dag.

Friðrik sagði að þetta yrði best gert með því að koma bönkunum í hendur eigenda sem kunna með þá að fara og að bjóða almenningi að eignast hlutdeild í þeim.

„Það er einlæg von mín að Íslandsbanki verði skráður í Kauphöll á næstu 3-5 árum,“ sagði Friðrik.

Þá sagði Friðrik að virkja þyrfti fjármálamarkaðinn og koma fjármunum á hreyfingu þannig að þeir liggi ekki inn á bankabókum heldur fari frekar í fjárfestingu í atvinnulífinu.