Íslandsbanki mun leggja áherslu á að endurskipuleggja fjármál og lánamál viðskiptavina sinna, bæði fyrirtækja og einstaklinga, næstu misserin, að sögn Friðriks Sophussonar.

Friðrik,sem er fyrrverandi fjármálaráðherra og forstjóri Landsvirkjunar, var á mánudag kjörinn formaður stjórnar bankans á aðalfundi hans Jafnframt var ný stjórn kjörin.

Því er Íslandsbanki fyrsti bankinn sem er að fullu endurreistur eftir bankahrunið. Kröfuhafar Glitnis hafa að mestu eignast bankann, eða 95% hlut, í gegnum eignarhaldsfélagið ISB. Þá á íslenska ríkið 5% hlut.

Friðrik segist vera mjög ánægður með nýja stjórn bankans, þarna sé gott fólk og fyrir utan Íslendingana sem þarna sitja séu fjórir erlendir aðilar sem hafa margra áratuga reynslu af bankastarfsemi og það muni styrkja bankann verulega. Hann segir að mjög góður starfsandi ríki í bankanum og mikill vilji sé meðal starfsfólks að endurheimta traust og ná góðum árangri.

„Bankanum hefur tekist vel til og náð ákveðnu forskoti og á næstunni verður lögð áhersla á að endurskipuleggja fjármál og lánamál viðskiptavina, bæði fyrirtækja og einstaklinga,“ segir Friðrik og bætir því við að bankinn muni fylgja alþjóðlegum vinnureglum og verkferlum í starfsemi sinni.

Alþjóðleg starfsemi takmörkuð

Þá segir Friðrik að samhliða þessu verði unnið að því að undirbúa framtíð bankans. Ljóst sé að bankinn verði ekki alltaf í eigu ISB Holding og fyrr eða síðar munu kjölfestufjárfestar koma að bankanum og taka yfir rekstur hans.

„En það eru nokkur ár í það og þangað til munu bæði stjórn og starfsfólk bankans vinna í því að auka verðmæti og bæta hag hans, svo að hann geti sinnt betur þörfum viðskiptavina, starfsmanna og eigenda,“ segir Friðrik.

Aðspurður um alþjóðlega starfsemi bankans segir Friðrik að ljóst sé að hún verði takmörkuð til að byrja með. Það sé þó ekkert því til fyrirstöðu að bankinn taki þátt í alþjóðlegum verkefnum þegar fram líða stundir og markaðir opnast á ný.

Hann leggur þó áherslu á að bankareksturinn verði íhaldssamur til að byrja með og Íslandsbanki verði eins og aðrir íslenskir bankar, hóflega áhættusækinn á næstu misserum.