Einkavæðing síðustu ára hefur legið undir gagnrýni en Friðrik Sophusson, fyrrv. fjármálaráðherra og forstjóri Landsvirkjunar, er einn af höfundum og frumkvöðlum í einkavæðingu ríkisfyrirtækja.

Reyndar byrjaði barátta Friðriks fyrir einkavæðingu snemma á áttunda áratugnum þegar hann var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, en sú barátta fór fram undir slagorðinu Báknið burt sem margir ættu að þekkja.

Aðspurður um þá gagnrýni sem beinst hefur að einkavæðingunni segir Friðrik að það yrði afleit niðurstaða ef menn kæmust að þeirri niðurstöðu, eftir allt sem gerst hefur, að ríkið eigi að reka alla atvinnustarfsemi, þar á meðal bankastarfsemi.

„Ég held að það sé arfavitlaust að færa atvinnu og bankastarfsemi undir ríkið til frambúðar,“ segir Friðrik í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Ég hef fulla trú á því að markaðurinn muni ná sér. Við munum aftur sjá öflugan markaðsbúskap og sterk einkafyrirtæki starfa á markaði. Einhvers konar allsherjarríkisvæðing er ekki sá lærdómur sem við eigum að draga af atburðum síðustu missera.“

Friðrik segir þó augljóst að skerpa þurfi leikreglurnar á fjármálamarkaði.

„Við höfum lært af biturri reynslu að það þurfa að vera skýrari leikreglur og öflugt eftirlit. Þegar tínt er upp úr pokanum núna eftir bankahrunið sjá menn að það var farið langt út fyrir það sem getur talist eðlilegt í svona starfsemi.“

Áttu þar við stjórnendur bankanna?

„Já, meðal annars,“ segir Friðrik.

„Til dæmis fengu eignarhaldsfélög með tiltölulega lítið eigið fé, og oft í eigu þeirra sem áttu bankana, mikil lán í bönkunum. Nú standa þessi fyrirtæki eftir stórskuldug og eignalaus. Ég held að menn þurfi að læra af þeim mistökum sem gerð voru án þess að færa allt undir ríkið. Þannig verður það í öðrum löndum og Ísland er ekkert öðruvísi í þessum efnum.“

Þú hefur þá ekki skipt um skoðun frá því að þú tókst þátt í því að móta einkavæðingarstefnuna?

„Nei, alls ekki,“ segir Friðrik.

„Einkavæðing bankanna átti sér reyndar stað eftir að ég hætti í stjórnmálum en það breytir því ekki að ég tel að hún hafi víðast skilað sér ágætlega. Menn mega ekki gleyma því hvernig hún, ásamt öðru, skilaði sér í almennri hagsæld ef undan eru skilin síðustu árin, þegar gífurlegur ofvöxtur hljóp í bankakerfið með alkunnum afleiðingum.“

En nú hafa menn talað um frelsisvæðingu sem á að hafa átt sér stað of hratt. Hvað segir þú um það?

„Ég held að það sé mikil einföldun að einblína á einkavæðingu bankanna til að skýra bankahrunið á Íslandi,“ segir Friðrik.

„Bankakreppan er alþjóðlegt vandamál. Það er stundum eins og Íslendingar trúi því að þetta bankahrun sé íslenskt og einungis Íslendingum að kenna. Í raun og veru er bankahrunið afleiðing af atburðum sem áttu sér stað út í heimi á meðan aðgangur að fjármagni var mjög auðveldur og lágir vextir á lánum. Þetta er alþjóðlegt fyrirbæri og við erum enn að sjá banka falla erlendis.“

_____________________________

Nánar er rætt við Friðrik í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .