Aðspurður um hver sé besta leiðin til að auka tekjur ríkissjóðs segir Friðrik Sophusson, fyrrv. fjármálaráðherra og forstjóri Landsvirkjunar að fyrst og fremst þurfi að efla atvinnulífið og nýta þær auðlindir sem hér eru.

„Við eigum auðlindir í hafinu og eins orkuna. Því miður hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar ekki verið með þeim hætti sem við þurfum,“ segir Friðrik í viðtali við Viðskiptablaðið.

Í því samhengi nefnir Friðrik sem dæmi að sjávarútvegsfyrirtækin hafi verið sett í uppnám með tali um fyrningarleið og það dragi mikinn mátt úr fyrirtækjunum.

„Þetta verður til þess að menn þora ekki að fjárfesta í sjávarútvegi því þeir horfa fram á að verðmæti fyrirtækjanna fari minnkandi. Það eru mjög eðlileg viðbrögð við þessu tali,“ segir Friðrik.

Vart þarf að koma á óvart að Friðrik, sem nýlega lét af störfum sem forstjóri Landsvirkjunar eftir 11 ár í starfi, telji að Ísland eigi mikla von í orkumálum. Aðspurður nánar um orkumálin segir Friðrik að ekki megi gleyma því að öll stóru orkufyrirtækin séu í opinberri eigu og því þurfi skýra stefnu frá stjórnvöldum í orkumálum til að hægt sé að koma virkjunum í gang sem fyrst og í framhaldinu skapa útflutningsverkefni.

„Bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra skrifuðu undir stöðugleikasáttmálann svokallaða þar sem sagt var að fyrir nóvember 2009 yrði rutt úr vegi þeim hindrunum sem væru til staðar vegna virkjananna,“ segir Friðrik.

„Það hefur því miður ekki gerst heldur hafa nýjar hindranir verið settar upp gegn virkjunum, t.d. í umhverfisráðuneytinu. Það er mjög skaðlegt fyrir íslenskt efnahagslíf. Endurnýjanlegar auðlindir eyðast ekki þótt af þeim sé tekið. Sumir hafa haldið því fram að það megi ekki virkja því að við þurfum að geyma svæði fyrir komandi kynslóðir og gefa þeim kost á því að virkja.“

Friðrik segir mikilvægt að hafa í huga að framtíðarkynslóðir munu líka njóta núverandi virkjana. „Virkjun sem er byggð í dag fer ekki neitt og mun gefa af sér í framtíðinni,“ segir Friðrik.

„Ef svo fer að stóru erlendu fyrirtækin vilja ekki vera hérna til frambúðar þá er hægt að selja orkuna öðrum eða flytja hana út um sæstreng. Virkjun er þá til staðar og möguleikinn á orkunýtingu. Ef við ætlum að hugsa til framtíðarkynslóða þá ættum við helst að virkja sem fyrst til að börnin okkar, barnabörn og komandi kynslóðir geti notið þess í framtíðinni. Á næstunni verður lögð fram rammaáætlun, þar sem koma fram tillögur um þau svæði sem má virkja og hin sem á að vernda. Vonandi auðveldar sú áætlun þjóðinni að virkja skynsamlega orkuauðlindirnar, en nýting þeirra er ein af forsendum þess að okkur takist að vinna okkur út úr þeim vanda, sem við höfum ratað í. “

_____________________________

Nánar er rætt við Friðrik í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .