Hvíta húsið mun tilkynna um samstarf við Uber og Lyft síðar í dag sem felur í sér að einstaklingum muni bjóðast endurgjaldslaust far til og frá bólusetningu fram til þjóðhátíðardags Bandaríkjamanna, 4. júlí næstkomandi. WSJ hefur þetta eftir fulltrúum stjórnvalda.

Bandarísk stjórnvöld munu veita fyrirtækjunum upplýsingar um 80 þúsund bólusetningarútibú í tengslum við samstarfið en þau munu ekki greiða fyrirtækjunum fríferðirnar. Fyrirtækin sjá engu að síður hag í samstarfinu þar sem framtakið gæti laðað fleiri bílstjóra til þeirra og fjölgað nýskráningum notenda, en veirufaraldurinn hefur komið illa við rekstur þeirra.

Nánari útfærsla samstarfsins verður kynnt síðar í dag en það mun vera liður í þeirri viðleitni stjórnvalda að ná settu marki um að 70% fullorðinna þar í landi hafi fengið í það minnsta fyrri skammt bóluefnis fyrir þjóðhátíðardaginn.

Uber og Lyft höfðu þegar tekið upp á því að veita afslátt af eða niðurfellingu fargjalda við ákveðnar kringumstæður en nú verður farið öllum endurgjaldslaust. Fyrirtækin munu auglýsa fríferðirnar í snjallforritum sínum.

Biden miðaði bólusetningarmarkmið sitt við þjóðhátíðardagurinn í von um aukið öryggi fólks við mannsöfnuð í tengslum við hátíðarhöldin. Eftirspurn eftir bólusetningu vestanhafs hefur dregist saman undanfarnar vikur eftir að hafa farið vel af stað.