Hlutabréfagengi kvikmyndahúsakeðjunnar AMC nærri tvöfaldaðist í gær eftir að fyrirtækið tilkynnti um að hluthöfum stæðu til boða ýmis fríðindi, þar á meðal frítt popp. Stöðva þurfti viðskipti með hlutabréf AMC í tvígang í gær.

Fríðindaklúbburinn kallast AMC Investor Connect og felur m.a. í sér aðgang fyrir hluthafa að sérstökum kvikmyndasýningum. Í tilkynningu AMC segir að tilgangurinn með átakinu sé að ná „beinum samskiptum við einstakan hóp af áhugasömum og ástríðufullum hluthöfum“.

AMC hefur verið nefnt í hópi „jarmhlutabréfa“ (e. meme stocks) þar sem hlutabréfagengið virðist aðallega stafa af áhuga dagkaupmanna fremur en árangri í rekstri. Kvikmyndahúsakeðjan tapaði 4,6 milljörðum dala á síðasta ári og tekjur félagsins féllu um 90% milli ára. Spjallþráðurinn WallStreetBets á Reddit hefur sýnt félaginu mikinn áhuga upp á síðkastið, m.a. til að skaða vogunarsjóði með skortstöðu á AMC, líkt og í tilviki Gamestop .

Meira en 3,2 milljónir einstaklingar eiga nú hlutabréf í AMC. Í umfjöllun Financial Times segir að áhugafjárfestar eiga nú um 80% af hlutafé AMC.

Hlutabréf AMC hafa hækkað um meira en 450% á rúmum mánuði og um meira en 3.000% frá byrjun ársins. Markaðsvirði félagsins nálgast nú 30 milljarða dala. AMC nýtti sér þennan mikla áhuga og tilkynnti í gær um útgáfu nýs hlutafjár fyrir 230 milljónir dala að raunvirði.

James Crombie, blaðamaður Bloomberg, benti á að markaðsvirði AMC er nú farið að nálgast Deutsche Bank.