Fjármálaráðherra Bretlands, Philip Hammond, hefur þegar byrjað viðræður við Kína um metnaðarfullan fríverslunarsamning sem gæti gefið kínverskum fyrirtækjum og bönkum aðgang að hagkerfi Bretlands.

Tímabært að skoða tækifæri um allan heim

Hammond segir að nú sé tímabært að skoða ný tækifæri út um allan heim, þar á meðal við Kína, sem er einn stærsti erlendi fjárfestirinn í landinu.

Jafnframt segir hann að Evrópusambandið ætli sér ekki að refsa Bretlandi fyrir að hafa valið að yfirgefa sambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Það sem við þurfum núna er að halda áfram á þann hátt að þetta takmarki áhrifin á hagkerfi Bretlands til skemmri tíma og hámarki ábatann til lengri tíma,“ sagði Hammond.

Kínverska viðskiptaráðuneytið tilbúið

Samkvæmt kínverskum ríkisfjölmiðlum er kínverska viðskiparáðuneytið tilbúið að gera fríverslunarsamning við Bretland. Nú segir Hammond að Bretland sé jafnframt áfjáð í að gera slíkan samning.

Væri það í fyrsta skipti sem Bretland færi út í jafnstóran samning við næststærsta hagkerfi í heiminum. Fælist í samningnum að í stað aukins aðgangs til Bretlands fyrir fjárfestingar og framleiðsluvörur, þá myndi Kína draga úr takmörkunum á aðkomu breskra þjónustfyrirtækja eins og bankastofnana og tryggingarfélaga á kínverska markaðinn.

„Nú þegar Bretland yfirgefur Evrópusambandið, og er ekki bundið reglum sambandsins, þá verður auðveldara að semja við Bretland í framtíðinni,“ segir Hammond.