EFTA-löndin hafa gert fríverslunarsamning við KanadaÞetta er fyrsti fríverslunarsamningurinn sem Kanadabúar gera í sex ár, en til samanburðar hafa nágrannar þeirra í Bandaríkjunum gert tólf slíka á tímabilinu.

Benedikt Jónsson sendiherra var aðalsamningarmaður Íslands, að því er segir í vefriti viðskiptasviðs utanríkisráðuneytisins. Samningurinn felur í sér niðurfellingu ýmissa tolla á iðnaðarvörur og ýmsum öðrum útflutningsvörum Íslands, til að mynda hrossum, mjólkurvörum og sjávarafurðir. Kanada mun njóta sömu undanþágu og ESB-ríki í útflutningi til Íslands á ýmsum landbúnaðarvörum.

Athygli vekur að einnig er í samningnum ákvæði að frumkvæði Íslands, en það snertir tímabundinn aðgang og dvöl lykilstarfsmanna fyrirtækjum og starfsmönnum sem vinna við þjónustu í tengslum við vöruviðskipti. Samningurinn bíður nú undirritunar og fullgildingar á Íslandi sem og í hinum EFTA-ríkjunum.