Á ráðherrafundi EFTA ríkjanna, fjögurra, Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss, í Genf í dag var undirrituð yfirlýsing um lok viðræðna EFTA og Indónesíu um fríverslunarsamning.

Lokið var viðræðum evrópsku fríverslunarsamtakanna við ríkið í upphafi mánaðar, sem staðið höfðu yfir síðan árið 2010. Einnig var skrifað undir uppfærslu á tvíhliða samningum við Ísrael um viðskipti með landbúnaðarafurðir á fundinum.

Nær til sjávar- og landbúnaðarafurða

Segir á vef stjórnarráðsins að samingur EFTA við Indónesíu nái m.a. til vöru- og þjónustuviðskipta, opinberra útboða, hugverkaréttinda og sjálfbærrar þróunar. Falla fisk- og sjávarafurðir, iðnaðar- og tæknivörur sem og landbúnaðarafurðir undir samninginn.

Samanlögð vöruviðskipti Íslands og Indónesíu námu rúmum milljarði króna í fyrra. „Viðræðurnar tóku drjúgan tíma en niðurstaðan er líka ákaflega góð og því fagna ég þessum áfanga innilega,“ segir Guðlaugur Þór

„Indónesía er ört vaxandi markaður með 260 milljónir íbúa og fríverslunarsamningur við þetta fjölmenna ríki hefur því í för með sér augljósan ávinning fyrir íslenska útflytjendur.“

Með samninga við 39 ríki og landsvæði

Á fundinum, sem haldinn er tvisvar á ári, var jafnframt farið yfir stöðu annarra viðræðna um fríverslun og var einhugur um að halda áfram að tala við Indland, Víetnam, Malasíu og Mercasor ríkin svokölluðu í Suður Ameríku.

Í því tollabandalagi eru Argentína, Brasilía, Paraguay, Uruguya, auk þess sem Bólivía, Síle, Ecuador, Guyana, Perú og Suriname hafa aukaaðild. Venesúela var vikið úr samtökunum 1. desember 2016.

Loks var rætt um hugsanlega uppfærslu á gildandi fríverslunarsamningum við Kanada, Síle og Mexíkó auk möguleika á að hefa viðræður við Pakistan, Moldóvu og Kósovó.

Í heildina hafa EFTA ríkin nú 28 fríverslunarsamninga við 39 ríki eða landsvæði auk sex samstarfsyfirlýinga. Loks var rætt á fundinum um áherslu á jöfn tækifæri karla og kvenna við gerð fríverslunarsamninga.