Leiðtogar þriggja viðskiptasambanda í Afríku samþykktu í dag að mynda nýtt fríverslunarbandalag Afríku, sem í verða 26 lönd með samanlagða landsframleiðslu upp á u.þ.b. 624 milljarða Bandaríkjadala.

Talið er að samningurinn auðveldi flæði milli markaða og bindi enda á ýmis vandamál sem verða til vegna þess að nokkur lönd tilheyra mismunandi hópum.

Einnig styrkir samningurinn stöðu Afríku á alþjóðavettvangi.

„Helsti óvinur Afríku, mesti veikleiki álfunnar, hefur verið sundrung og lítið pólitískt og efnahagslegt samstarf,“ sagði Yoweri Museveni, forseti Úganda, við undirritun sáttmálans í Kampala.

Í samningnum er auk fríverslunar kveðið á um samstarf við uppbyggingu umgjarðar um viðskiptalífið og samstarf í orkuverkefnum á svæðinu.

BBC greindi frá.