Svo virðist sem íslensk fyrirtæki nýti ekki þá fríverslunarsamninga sem gerðir hafa verið á undanförnum árum m.a. við lönd í Asíu. Þannig virðast ekki margir hafa áttað sig á því að engir tollar eru greiddir af vörum sem verslað er með á milli Íslands og Singapore. Flutningakostnaður frá Asíu er oft á tíðum heldur ekki hærri en flutningur frá löndum í sunnanverðri Evrópu. Með því að nýta sér betur þá kosti sem fríverslunarsamningarnir fela í sér gætu fyrirtæki vafalaust hagnast töluvert. SVÞ og Utanríkisráðuneytið efna til fundar um þessi mál 30. september nk.