Í mars áttu sér stað könnunarviðræður um fríverslun milli EFTA ríkjanna og tollabandalagsins Mercosur. Í Mercosur eru ýmis lönd í Suður-Ameríku, þeirra á meðal Brasilía og Venesúela. Þó að viðskipti Íslands við þessi lönd séu ekki fyrirferðarmikil í umræðunni eru þau engu að síður umtalsverð. Innflutningur vöru og þjónustu frá Mercosur-ríkjunum nam yfir 45 milljörðum króna og útflutningur til þeirra um 5 milljörðum króna á árinu 2013 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.

Í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segist Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra vonast til þess að formlegar fríverslunarviðræður geti hafist fljótlega. Aðspurður segir ráðherra þó of snemmt að segja til um hvort viðræður geti hafist á þessu ári. „Það er að ýmsu að huga þegar lögð eru drög að fríverslunarviðræðum og yfirleitt farsælla að vanda vel til undirbúningsins. Hins vegar vonumst við auðvitað til þess að niðurstaðan liggi fyrir eins fljótt og auðið er,“ segir Gunnar Bragi. Spurður um samningsmarkmið Íslands í hugsanlegum viðræð- um við Mercosur segir Gunnar að markmið EFTA og Íslands í öllum fríverslunarviðræðum séu vanalega þau sömu. „EFTA leggur áherslu á að semja um gagnkvæma niðurfellingu tolla á velflestum iðnaðarvörum og sjávarafurðum, að auka frelsi í viðskiptum með þjónustustarfsemi og að draga úr hindrunum í vegi fjárfestinga. Jafnframt hefur EFTA á síðustu árum lagt áherslu á að í fríverslunarsamningnum séu undirstrikaðar alþjóðlegar skuldbindingar á sviði vinnuverndar og umhverfismála. Við munum nálgast viðræður með Mercosur með þessi markmið,“ segir utanríkisráðherra.

Nánar er fjallað um málið í nýasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem nálgast má hér.