Fríverslunarsamningur EFTAríkjanna og S-Kóreu öðlast formlegt gildi gagnvart Íslandi hinn 1. október næstkomandi að því er kemur fram í vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Samningurinn, sem var undirritaður í desember á síðasta ári og lagður fyrir Alþingi í vor er leið, nær til allra helstu sviða viðskipta, þ.m.t. vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, opinberra innkaupa, samkeppnismála og hugverkaréttinda. Vonir standa til að samningurinn muni nýtast íslensku atvinnulífi vel, en hann kveður á um skilyrðislausa fríverslun með almennar framleiðsluvörur og leiðir til að fella niður tolla á flestum mikilvægustu útflutningsvörum Íslendinga á þessu markaðssvæði, t.d. sjávarafurðum, vélbúnaði, plastkerjum og plastbökkum.

Í fáeinum tilvikum var nauðsynlegt að ákveða nokkurn aðlögunartíma vegna tollalækkana eða ákveða endurskoðun að tilteknum tíma liðnum. Fyrsti fríverslunarsamningur S-Kóreu við Evrópuríki EFTA-ríkin eru fyrst evrópskra ríkja til að undirrita fríverslunarsamning við Suður- Kóreu, en áður hafði Suður- Kórea gert fríverslunarsamninga við aðeins tvö ríki, Chile og Singapúr sem EFTA hefur einnig gert samninga við segir í vefritinu.

Suður-Kórea er ellefta stærsta hagkerfi heims og þriðji stærsti útflytjandi Asíuríkja. Árið 2005 námu vöruviðskipti milli EFTAríkjanna og Suður-Kóreu rúmlega 3 milljörðum Bandaríkjadala sem er 11% aukning að nafnvirði frá árinu áður.

EFTA-ríkin eru níundi stærsti vöruútflytjandi heims, þrátt fyrir að samanlagður íbúafjöldi þeirra sé aðeins um 12 milljónir. EFTA-ríkin hafa nú gert 16 fríverslunarsamninga við 20 samstarfsríki um heim allan með samtals 389 milljónir íbúa. Þá má nefna fríverslunartengsl við Evrópusambandið sem hefur 465 milljónir íbúa innan vébanda sinna.