Fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Kólumbíu var undirritaður í tengslum við ráðherrafund EFTA, sem fram fer í Genf þessa dagana. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra stýrði fundinum í fjarveru Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra.

Meginviðfangsefni fundarins var staða og stefna í fríverslunarviðræðum EFTA-ríkjanna.

"Á fundinum lýstu ráðherrarnir því yfir að EFTA-ríkin væru reiðubúin til að hefja á seinni hluta næsta árs viðræður um fríverslunarsamning við Rússland. Ákveðið var á fundinum að hefja fríverslunarviðræður við Úkraínu, Albaníu og Serbíu á næsta ári. Stefnt er að því að taka að nýju upp samningaviðræður við Taíland þegar aðstæður leyfa," segir m.a. á vef utanríkisráðuneytisins.