Halldór Ásgrímsson hefur undirritað samning við Líbanon um fríverslun. Hann felur í sér að tollar á allar iðnaðarvörur verða afnumdir á 11 árum frá gildistöku. Hvað varðar sjávarafurðir verður fullt tollfrelsi með þær innan þriggja ára frá gildistöku, nema reyktum laxi en tollar á reyktum laxi verða afnumdir á 11 árum.

Ákvæði eru einnig í samningnum um vernd hugverkaréttinda, þjónustuviðskipti og úrlausn deilumála, en Líbanon stefnir að aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni árið 2005. Tvíhliða landbúnaðarsamningar voru einnig gerðir í tengslum við fríverslunarsamninginn, sem kveða á um sambærilegar tollalækkanir og réttindi og í öðrum landbúnaðarsamningum í tengslum við fríverslun.

Viðskipti Íslands við Líbanon eru í dag óveruleg og ætti því fríverslunarsamningurinn að geta orðið grunnur að auknum viðskiptum, en hann tekur gildi 1. janúar 2005. Einnig undirritaði utanríkisráðherra fjárfestingasamning milli Íslands og Líbanon, en iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hefur haft umsjón með gerð hans í samráði við utanríkisráðuneytið. Hann tryggir gagnkvæma vernd fjárfestinga milli landanna og auðveldar þannig fjárfestingar í fyrirtækjum og verkefnum sem gætu aukið viðskipti milli landanna.