Fríverslunarsamningur Íslands við Kína tekur formlega gildi í dag en hann hefur í för með sér niðurfellingu tolla á öllum helstu útflutningsafurðum Íslands en þar vegur sjávarútvegur þungt. Einnig verða felldir niður tollar á öllum kínverskum vörum sem fluttar eru til Íslands að undanskildum ákveðnum landbúnaðarafurðum, aðallega kjötvörum og mjólkurafurðum.

Í Fréttablaðinu í dag rita bæði Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson, núverandi utanríkisráðherra, greinar um fríverslunarsamninginn. Í grein Össurar kemur fram að samningurinn hafi verið í ákveðnu frosti þar til að Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, kom í opinbera heimsókn til Íslands í apríl 2012. Þar segir hann einnig að samningurinn sé mikilvægasti samningurinn sem Ísland hefur gert síðastliðin tuttugu ár.

Gunnar Bragi tekur í sama streng í grein sinni og bendir á að samningurinn feli ekki aðeins í sér sóknarfæri fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki heldur getur hann verið til töluverðra hagsbóta fyrir íslensk heimili. Þar bendir hann á að netverslun frá Kína hafi stóraukist frá síðum á borð við Aliexpress en meira sé nú flutt frá þeirri síðu en t.a.m. Ebay.

Ítarleg umfjöllun um fríverslunarsamning Íslands og Kína er í nýjasta hefti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið með því að smella á hlekkinn Tölublöð .