Aðalsamningamaður Evrópusambandsins í fríverslunarviðræðum þess við Bandaríkin segir ofsögum sagt að samningaviðræðurnar hafi siglt í strand.

Um helgina bárust fréttir af því að efnahagsráðherra Þýskalands, Sigmar Gabriel hafi staðhæft að svo væri, en samningamaðurinn, Ignacio Garcia Bercero sagði: „Nei, nei. Munið hvað Mark Twain sagði.“

Misheppnast þó engin viðurkenni það

„Að mínu áliti hafa viðræðurnar við Bandaríkin í raun misheppnast, jafnvel þó enginn sé í raun að viðurkenna það,“ sagði Gabriel.

Bendir hann á að í þeim 14 viðræðum sem þegar hafa átt sér stað hafa samningsaðilarnir ekki náð saman um eina sameiginlega niðurstöðu af þeim 27 liðum sem hafa verið til umræðu.

Ásakar Bandarísk stjórnvöld

Stjórnvöld í hvort tveggja Washington og Brussel hafa þrýst á að samningarnir verði kláraðir fyrir lok ársins, þrátt fyrir að margrar aðildarþjóðir ESB gjalda varhugar við samningana sem ganga undir nafninu Transatlantic Trade and Investment Partnership, skammstafað TTIP.

Sakaði Gabriel stjórnvöld í Bandaríkjunum um reiði gagnvart ESB vegna samningsins sem sambandið náði við Kanada, sem kallaður er CETA, því hann feli í sér atriði sem Bandaríkin vilja ekki að rati í TTIP.

Talar gegn því að gefa eftir fyrir Bandaríkjunum

„Við megum ekki gefa eftir fyrir tillögum Bandaríkjanna,“ sagði Gabriel sem er jafnframt leiðtogi sósíaldemókrataflokksins SDP sem er í stjórnarsamstarfi við kristilega demókrataflokk Angelu Merkel kanslara Þýskalands.

Sterk undiralda er gegn fríverslunarsamningunum meðal íbúa í Þýskalandi, hafa andstæðingar samninganna skipulagt mótmæli um allt landið gegn þeim 17. september næstkomandi, sem er um ári fyrir næstu þingkosningar í landinu.