Fríverslunarviðræður milli Íslands og Kína hefjast  senn með hliðsjón af meginniðurstöðum hagkvæmniathugunar um gerð fríverslunarsamnings milli landanna sem lokið var við síðastliðið sumar að því er kemur fram í Stiklum, vefriti utanríkisráðuneytisins.

Hinn  4. desember síðastliðin undirrituðu Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og Yu Guangzhou, aðstoðarutanríkisviðskiptaráðherra Kína, viljayfirlýsingu um upphaf fríverslunarviðræðna og dagana 24. og 25. janúar síðastliðin var haldinn undirbúningsfundur embættismanna í Beijing þar sem fyrirkomulag og framhald viðræðna voru ákveðin.

Í vefritinu kemur fram að fyrsti formlegi samningafundurinn verður haldinn  í Beijing dagana 11. til 13. apríl næstkomandi.Næsti fundur þar á eftir verður í Reykjavík í júní  næstkomandi. Ennfremur hefur verið ákveðið að skipa sérstaka vinnuhópa um ákveðna þætti fríverslunarsamningsins, svo sem vöruflokka, upprunareglur og tollmeðferð, tæknilegar viðskiptahindranir, þjónustuviðskipti o.fl. Stefnt er að því að fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína verði svonefndur annarrar kynslóðar samningur, en þeir samningar eru mun umfangsmeiri en hefðbundnir fyrstu kynslóðar fríverslunarsamningar sem ná einungis til vöruviðskipta. Stefnt er að því að semja um fulla fríverslun með sjávarafurðir.


Á undirbúningsfundinum lagði Ísland fram drög að hugsanlegum fríverslunarsamningi. Þau byggja að miklu leyti á fyrirmynd þeirra EFTAfríverslunarsamninga sem gerðir hafa verið undanfarið og gengið hafa hvað lengst í frjálsræðisátt. Drögin verða endurbætt af báðum samningsaðilum í aðdraganda samningafundarins í apríl og meðan á samningaviðræðum stendur.


Að sögn Gunnars Snorra Gunnarssonar, sendiherra Íslands í Kína, sem leiðir viðræðurnar fyrir Íslands hönd, eru miklar vonir bundnar við að samningaviðræður geti gengið fljótt og vel fyrir sig. Verkefnið er hins vegar gríðarlega umfangsmikið og er um það víðtækt samráð innan stjórnarráðsins. Að samningunum koma, auk embættismanna utanríkisráðuneytisins, sérfræðingarfrá fjármála-, sjávarútvegs-, landbúnaðar-, og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum. Einnig veita sérstaka aðstoð bæði fastanefnd Íslands í Genf og sendiráð Íslands í Brussel. Benedikt Jónsson, sendiherra og skrifstofustjóri á viðskiptasviði utanríkisráðuneytisins,leiðir samhæfingu þeirrar undirbúningsvinnu sem fram fer á Íslandi.


Gunnar Snorri og samninganefnd Íslands leggja áherslu á að íslenskir viðskiptaaðilar, sem stunda  viðskipti, eða hyggjast stunda viðskipti, við Kína, hafi samband við skrifstofu viðskiptasamninga í utanríkisráðuneytinu, ef þurfa þykir vegna samningaviðræðnanna. Áætlað er að halda samráðsfund með aðilum viðskiptalífsins að lokinni annarri lotu samningaviðræðna í júní næstkomandi. Álíka fundur var haldinn í byrjun janúar sl. þar sem Gunnar Snorri kynnti helstu áherslur og markmið í viðræðunum.