Frjáls lífeyrissparnaður verður stöðugt algengari að því er fram kemur í frétt frá Fjármálaráðuneytinu. Í upplýsingum Ríkisskattstjóra um álagningu á einstaklinga árið 2005 (tekjuárið 2004) kemur fram að yfir helmingur launþega sparaði með þessum hætti það ár. Hafði þeim fjölgað um 8,2% frá fyrra ári en frjáls lífeyrissparnaður óx um 12,2% og nam 7,6 milljörðum.

Frádráttur frá tekjuskattstofni vegna séreignalífeyrissparnaðar var tekinn upp tekjuárið 1999 og var þá 2%. Hann var síðan hækkaður í 4% árið eftir og hefur verið óbreyttur síðan. Þeim launþegum sem notfæra sér þessa heimild hefur farið fjölgandi.

Meðallaunatekjur þeirra sem spara með þessum hætti eru heldur lægri en hjá heildinni og bendir það til þess að þeir séu heldur yngri en meðaltalið enda fara tekjur almennt hækkandi með aldri langt fram eftir starfsævinni. Þetta bendir til þess að aukinn fjöldi íslenskra launþega telji skynsamlegt að eiga von á meiri ráðstöfunartekjum þegar þeir hætta störfum en hinar tvær stoðir lífeyriskerfisins, almennu lífeyrissjóðirnir og almannatryggingarkerfið, munu bjóða þeim.